Lög Eðlisfræðifélags Íslands

Félagið heitir Eðlisfræðifélag Íslands og hefur aðsetur í Reykjavík.

 1. Markmið félagsins er að efla eðlisfræði á Íslandi og örva beitingu hennar.
 2. Til þess að ná markmiði sínu vinnur félagið m.a. að eftirtöldum verkefnum:
  1. að efla eðlisfræðirannsóknir á Íslandi.
  2. að fylgjast með eðlisfræðikennslu í íslenskum skólum og stuðla að framförum á því sviði.
  3. að beita sér fyrir fræðslu um eðlisfræði með fyrirlestrum og í rituðu máli.
  4. að efla kynni íslenskra eðlisfræðinga innbyrðis og við aðra áhugamenn um eðlisfræði í landinu.
  5. að auka samskipti íslenskra og erlendra eðlisfræðinga og koma fram fyrir hönd félagsmanna á erlendum vettvangi.
 3. Aðalfélagar geta orðið allir þeir sem hafa lokið háskólaprófi með eðlisfræði eða skyldum greinum, svo sem jarðeðlisfræði, stjörnufræði eða eðlisverkfræði, sem aðalgrein, enda sé prófið miðað við a.m.k. þriggja ára nám að loknu stúdentsprófi. Þeir sem óska að gerast aðalfélagar skulu sækja skriflega um það til stjórnar og leggja fram gögn um nám sitt og próf. Aðrir einstaklingar, sem hafa áhuga á markmiðum félagsins, geta gerst aukafélagar án atkvæðisréttar og kjörgengis. Skulu þeir ekki boðaðir á fundi er eingöngu varða aðalfélaga.
 4. Fyrirtæki, stofnanir og aðrir, er styðja vilja markmið félagsins, geta gerst styrktarfélagar.
 5. Rísi ágreiningur um aðild að félaginu, sker aðalfundur úr.
 6. Stjórn félagsins er skipuð fimm mönnum. Hver stjórnarmaður er kosinn til tveggja ára í senn. Skal formaður kosinn annað árið ásamt einum stjórnarmanni, en hitt árið skal kjósa þrjá stjórnarmenn. Stjórnin skipar með sér verkum. Kosningar samkvæmt þessari grein fara fram á aðalfundi.
 7. Aðalfundur skal haldinn á tímabilinu 25. mars – 15. maí ár hvert. Skal hann boðaður bréflega með a.m.k. viku fyrirvara. Dagskrá aðalfundar er sem hér segir:
  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla formanns flutt.
  3. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu.
  4. Lagabreytingar, ef fram koma.
  5. Kosning stjórnarmanna.
  6. Kosning tveggja endurskoðenda til eins árs.
  7. Ákvörðun árgjalds.
  8. Önnur mál.

  Skuldlausir félagsmenn einir hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.

 8. Æski 10 aðalfélagar þess skriflega, skal kalla saman félagsfund eða aukaaðalfund. Stjórn getur boðað til félagsfundar eða aukaaðalfundar þyki nauðsyn bera til. Aukaaðalfund og félagsfund skal boða á sama hátt og aðalfund og skal gerð grein fyrir dagskrá í fundarboði.
 9. Tillögur um lagabreytingar berist stjórn fyrir 15. mars ár hvert, en hún sendir þær út með fundarboði aðalfundar. Lagabreytingar skoðast því aðeins samþykktar að þær hafi hlotið 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi.
 10. Aukafélagar greiða hálft árgjald. Styrktarfélagar greiða félagsgjald eftir samkomulagi.
 11. Heiðursfélaga má kjósa þá menn, er unnið hafa frábært starf að markmiðum félagsins. Heiðursfélagar eru kjörnir ævilangt á aðalfundi og þarf til þess 2/3 hluta atkvæða atkvæðisbærra fundarmanna. Heiðursfélagar greiða ekki árgjald en njóta allra sömu réttinda og aðalfélagar. Tillögur um heiðursfélaga skulu berast stjórn fyrir 15. febrúar ár hvert.
 12. Verði félaginu slitið, renna eignir þess til Raunvísindastofnunar Háskólans.
Eðlisfræðifélag Ísland — 19. apríl 2016.