Ólympíukeppnin í eðlisfræði 2020

Eðlisfræðikeppni framhaldsskólanna átti fyrst að vera haldin helgina 28-29. mars 2020 en var slegið á frest í ljósi aðstæðna í tengslum við veiruna (COVID-19). Keppnin var síðan haldin helgina 23-24. maí 2020 eftir lok fyrri bylgjunnar. Það var kannski athyglisvert í ljósi þess að það var eflaust í fyrsta skipti sem að nýútskrifaðir stúdentar tóku þátt í keppninni og því var keppnin kannski erfiðari heldur en mörg önnur ár (og úrlausnirnar betri). Fyrsta sæti deildu þeir Jason Andri Gíslason og Kristján Leó Guðmundsson en báðir fengu 47.1 stig af 50 mögulegum. Þeir voru báðir í liðinu sem fór til Ísrael árið áður. Jason Andri sigraði fræðilegu keppnina með 29.1 stigi af 30 mögulegum en Kristján sigraði verklegu keppnina með 19.7 af 20 mögulegum stigum í verklega hlutanum. Þriðji í keppninni varð Arnar Ágúst Kristjánsson með 40.5 stig, fjórði varð Kári Rögnvaldsson með 38.2 stig og í fimmta sæti varð Örn Steinar Sigurbjörnsson með 31.2 stig. En það er gaman að segja frá því að Örn hafði lært mest allt sjálfur í sjálfsnámi sem hluta af undirbúningi fyrir læknisfræðiprófið þar sem að hann hafði enga formlega kennslu í eðlisfræði síðasta árið sitt í MR. Jason Andri og Kristján Leó ákváðu að þiggja sætið sem þeim var boðið í liðinu. Arnar og Kári völdu að taka þátt á Ólympíuleikunum í stærðfræði (Arnar hlaut heiðursviðurkenningu á Ólympíuleikunum í stærðfræði í sumar). Örn valdi að taka þátt í Ólympíuleikunum í efnafræði. Íslenska Ólympíuliðið í eðlisfræði skipuðu því Jason Andri Gíslason, Kristján Leó Guðmundsson, Arnar Gylfi Haraldsson, Valdimar Örn Sverrisson og Jón Valur Björnsson.

Sú þjóð sem átti að halda Ólympíuleikana í eðlisfræði 2020 var Litháen, en sökum ástandsins var henni frestað til ársins 2021 (og öllum Ólympíuleikum frestað um eitt ár). Eistinn, Jaan Kalda, tók málin í sínar hendur og ákvað að þá skyldu Evrópuleikarnir (EuPhO) verða rafrænir í ár ásamt því að bjóða fleiri þjóðum utan Evrópu. Íslendingar ákváðu því að taka þátt í þessum Evrópuleikum í fyrsta sinn. Evrópuleikarnir voru haldnir rafrænt 20-26. júlí 2020. Margar af þeim þjóðum sem taka venjulega þátt á alþjóðlegu leikunum tóku þátt á Evrópuleikunum núna (m.a. Japan, Kórea, Víetnam og Taívan). Alls tóku 54 þjóðir þátt á Evrópuleikunum í ár (það taka um það bil 80 þjóðir þátt á IPhO). Hugmyndafræðin á bak við verkefnin sem eru lögð fyrir á Evrópuleikunum eru aðeins frábrugðin þeim sem er lagt fyrir á alþjóðlegu Ólympíuleikunum. Á Evrópuleikunum er miðað við að verkefnin séu stutt og úrlausnir langar og einblínt á eðlisfræðilegt innsæi á meðan að á alþjóðlegu leikunum eru verkefnin löng og í mörgum liðum en hver liður hefur oft stutta lausn. Það þurfti því að breyta hefðbundna æfingarfyrirkomulagi liðsins til þess að búa keppendurna sem best undir Evrópukeppnina.

Íslenska liðið undirbjó sig vel í aðstöðunum sem að Háskóli Íslands og Háskóli Reykjavíkur útbjuggu handa þeim. Matthias Baldursson Harksen var fenginn til að þjálfa liðið þá tvo mánuði sem liðið hafði til undirbúnings fyrir keppnina. Aðrir sem komu að þjálfun liðsins voru Viðar Ágústsson, Ari Ólafsson, Sigurður Ingi Erlingsson og Ágúst Valfells. Þegar kom að keppnisdegi þá var keppnin níðþung eins og svo oft áður og Ingibjörg Haraldsdóttir og Matthias Baldursson Harksen þurftu að hafa mikið fyrir því að komast inn í bygginguna og þýða á tilskyldum tíma því Eistarnir opnuðu fyrir þýðingarnar klukkan 6:30 (þar sem það var keppt í svo mörgum tímabeltum). Drengirnir stóðu sig samt prýðilega og ofar öllum vonum. Kristján Leó náði að vinna sér inn bronsmedalíu á leikunum. Jason Andri var afskaplega nálægt því að vinna sér inn heiðursviðurkenningu. Það ber að nefna að úrlausn Jasons Andra á fyrstu tilrauninni skilaði honum 7,1 stigi af 10 mögulegum en það var 26. besta úrlausnin í keppninni og hefði því samsvarað gullmedalíu í þeirri tilraun.