Dagskrá og ágrip erinda

Vinsamlegast skráið þátttöku á skráningarsíðunni.

Staðsetning: Háskólinn í Reykjavík, stofu M105, Nauthólsvíkurmegin.

10:30 Kaffiveitingar

10:55 Opnun ráðstefnu

11:00 Kristján Rúnar Kristjánsson, Íslandsbanka

Útlánaáhætta og líkanagerð við áhættustýringu í fjármálafyrirtæki

Kristján Rúnar Kristjánsson er forstöðumaður í áhættustýringu hjá Íslandsbanka en vann áður við rannsóknir á svartholum og er með doktorspróf í strengjafræði. Í þessu erindi verður sagt frá helstu verkefnum bankans sem tengjast útlánaáhættu og líkanagerð og ljósi varpað á það hvernig bakgrunnur úr eðlisfræði gagnast við þá vinnu.

11:20 Ágústa Loftsdóttir, Orkustofnun

Vistvænt eldsneyti

Ísland stendur sig best allra landa þegar kemur að notkun endurnýjanlegrar orku til upphitunar eða raforkuframleiðslu. Þegar kemur að eldsneytisnotkun er annað uppi á teningnum. Þar til nýlega var nær engin notkun á endurnýjanlegu eldsneyti hérlendis, en það hefur breyst ört á síðustu árum.

11:40 Halldór Björnsson, Veðurstofu Íslands

Eðlisfræði veðurspálíkana

Tæp 100 ár eru síðan fram komu hugmyndir um að reikna mætti veðurspár með því að leysa tölulega viðeigandi hlutafleiðujöfnur. Það var ekki fyrr en með tilkomu tölva að hægt var reikna veðurspá á nægilega stuttum tíma til þess að hún kæmi að gagni, en fyrstu tölvureiknuðu spárnar voru gefnar út í Svíþjóð í desember 1954. Á þeim rúmlega sextíu árum sem síðan eru liðin hafa veðurlíkön tekið miklum breytingum og tölvureiknaðar veðurspár hafa orðið mun áreiðanlegri. Í erindinu verður farið yfir hvaða jöfnur er verið að leysa og tæpt á því hver eru helstu vandmálin sem upp koma. Einnig verður rætt um upphafsgildin og hversu langt fram í tímann sé hægt að spá fyrir veðri.

12:00 Hádegishlé

13:00 Guðný Guðmundsdóttir, Menntaskólanum við Hamrahlíð

Hvað er verið að kenna, hvað verður kennt og hvað ætti að kenna?

Í erindinu verður stiklað á stóru í umræðu um námsskrá og kennsluaðferðir í eðlisfræði á framhaldsskólastigi. Hversu mikið námsefni ætti að fara yfir og hvers konar færni skiptir mestu máli að byggja upp? Getur verið að hugtakaskilningur sitji á hakanum í hefðbundinni kennslu? Hvaða áhrif hefur stytting framhaldsskólans á undirbúning nemenda í eðlisfræði?

13:20 Martin Jónas Björn Swift, Vísindasmiðju Háskóla Íslands

Á eðlisfræðikennsla heima í grunnskólum?

Efnistök skólakerfisins eru reglulega í endurskoðun en eðlilega gætir nokkurrar tregðu í því ferli sem öðrum. Í ljósi bágrar stöðu eðlisfræðikennslu á Íslandi og samkeppni við aðrar greinar í stundatöflum nemenda er rétt að kanna hverjar eru ástæður þessarar stöðu og skoða með gagnrýnum hug hvort og þá hvaða erindi eðlisfræðikennsla eigi yfir höfuð sem sérgrein í grunnskóla.

13:40 Kristján Leósson, Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Er eðlisfræði áhugaverð?

Fyrirlesari mun velta upp spurningum um eðlisfræðikennslu og samfélagslegt hlutverk eðlisfræðinga. Er eftirsóknarvert að læra eðlisfræði? Er eðlisfræði mikilvæg fyrir samfélagið? Er þörf á átaki til að gera eðlisfræði áhugaverðari?

14:00 Kaffihlé

14:30 Kristín S. Vogfjörð, Veðurstofu Íslands

Bárðarbunguumbrotin 2014/2015 – Kortlagning láréttra og lóðréttra kvikuhreyfinga og brotflatanna umhverfis öskjuna með háupplausnastaðsetnginum smáskjálfta

Eldsumbrotin í Bárðarbungu árið 2014 -2015 voru meiri háttar gliðnunaratburður, þar sem kvikuinnskot hljóp úr Bárðarbunguöskjunni, út í sprungusveiminn til norðausturs og endaði með gosi í Holuhrauni. Mikil skjálftahrina fylgdi kvikuinnskotinu, sem ferðaðist á tveim vikum 48 km að gosstöðvunum í Holuhrauni, þar sem síðan streymdu upp um 1.5 km^3 af gasríkri kviku á tæpum 6 mánuðum. Á meðan kvikan flæddi neðanjarðar, seig Bárðarbunguaskjan um ríflega 60 m og framkallaði sigið mörg þúsund smáskjálfta á öskjujaðrinum; einnig fjölda stærri skjálfta, eða yfir 80 stærri en M5 og með óvenju flókna útgeislun. Sýnt verður hvernig kortleggja má feril láréttra og lóðréttra kvikuhreyfinga mjög nákvæmlega með endurstaðsetningum um tíu þúsund smáskjálfta í ganginum og í djúpri kvikuuppstreymisrás undir honum. Með endurstaðsetningum smáksjálfta á öskjujaðrinum er einnig hægt að varpa ljósi á brotfletina sem öskjusigið átti sér stað um.

14:50 Erling Brynjólfsson, Kvikna

Eðlisfræði í vinnunni

Fjallað verður um nokkur atriði þar sem eðlisfræði kemur við sögu í verkefnum hjá hugbúnaðarhúsinu Kvikna. Erling lauk doktorsprófi í kennilegri eðlisfræði frá Háskóla Íslands árið 2010 og starfar nú hjá Kvikna við hugbúnaðarþróun og líkanagerð.

15:10 Hanna Björg Henrysdóttir, Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi

Hvað er læknisfræðileg eðlisfræði?

Nútíma læknisfræði krefst mikillar tækni og stöðugrar þróunar og hefur hugtakið læknisfræðileg eðlisfræði (e. medical physics) verið notað um þá grein eðlisfræðinnar sem sinnir þörfum læknisfræðinnar. Læknisfræðileg eðlisfræði er grunnur tækninnar á bak við geislameðferð, myndgreiningu og kjarnlækningar og kemur víðar við. Læknisfræðilegir eðlisfræðingar geta sinnt klínískri vinnu, rannsóknum og kennslu og bera ábyrgð á gæðum og öryggi í meðferð og greiningu. Í fyrirlestrinum verður farið yfir helstu svið og hlutverk eðlisfræði í læknisfræði nútímans.

15:30 Umræður og léttar veitingar

16:00 Ráðstefnuslit