Greinasafn fyrir flokkinn: Fréttir

Ólympíukeppnin í eðlisfræði 2020

Eðlisfræðikeppni framhaldsskólanna átti fyrst að vera haldin helgina 28-29. mars 2020 en var slegið á frest í ljósi aðstæðna í tengslum við veiruna (COVID-19). Keppnin var síðan haldin helgina 23-24. maí 2020 eftir lok fyrri bylgjunnar. Það var kannski athyglisvert í ljósi þess að það var eflaust í fyrsta skipti sem að nýútskrifaðir stúdentar tóku þátt í keppninni og því var keppnin kannski erfiðari heldur en mörg önnur ár (og úrlausnirnar betri). Fyrsta sæti deildu þeir Jason Andri Gíslason og Kristján Leó Guðmundsson en báðir fengu 47.1 stig af 50 mögulegum. Þeir voru báðir í liðinu sem fór til Ísrael árið áður. Jason Andri sigraði fræðilegu keppnina með 29.1 stigi af 30 mögulegum en Kristján sigraði verklegu keppnina með 19.7 af 20 mögulegum stigum í verklega hlutanum. Þriðji í keppninni varð Arnar Ágúst Kristjánsson með 40.5 stig, fjórði varð Kári Rögnvaldsson með 38.2 stig og í fimmta sæti varð Örn Steinar Sigurbjörnsson með 31.2 stig. En það er gaman að segja frá því að Örn hafði lært mest allt sjálfur í sjálfsnámi sem hluta af undirbúningi fyrir læknisfræðiprófið þar sem að hann hafði enga formlega kennslu í eðlisfræði síðasta árið sitt í MR. Jason Andri og Kristján Leó ákváðu að þiggja sætið sem þeim var boðið í liðinu. Arnar og Kári völdu að taka þátt á Ólympíuleikunum í stærðfræði (Arnar hlaut heiðursviðurkenningu á Ólympíuleikunum í stærðfræði í sumar). Örn valdi að taka þátt í Ólympíuleikunum í efnafræði. Íslenska Ólympíuliðið í eðlisfræði skipuðu því Jason Andri Gíslason, Kristján Leó Guðmundsson, Arnar Gylfi Haraldsson, Valdimar Örn Sverrisson og Jón Valur Björnsson.

Sú þjóð sem átti að halda Ólympíuleikana í eðlisfræði 2020 var Litháen, en sökum ástandsins var henni frestað til ársins 2021 (og öllum Ólympíuleikum frestað um eitt ár). Eistinn, Jaan Kalda, tók málin í sínar hendur og ákvað að þá skyldu Evrópuleikarnir (EuPhO) verða rafrænir í ár ásamt því að bjóða fleiri þjóðum utan Evrópu. Íslendingar ákváðu því að taka þátt í þessum Evrópuleikum í fyrsta sinn. Evrópuleikarnir voru haldnir rafrænt 20-26. júlí 2020. Margar af þeim þjóðum sem taka venjulega þátt á alþjóðlegu leikunum tóku þátt á Evrópuleikunum núna (m.a. Japan, Kórea, Víetnam og Taívan). Alls tóku 54 þjóðir þátt á Evrópuleikunum í ár (það taka um það bil 80 þjóðir þátt á IPhO). Hugmyndafræðin á bak við verkefnin sem eru lögð fyrir á Evrópuleikunum eru aðeins frábrugðin þeim sem er lagt fyrir á alþjóðlegu Ólympíuleikunum. Á Evrópuleikunum er miðað við að verkefnin séu stutt og úrlausnir langar og einblínt á eðlisfræðilegt innsæi á meðan að á alþjóðlegu leikunum eru verkefnin löng og í mörgum liðum en hver liður hefur oft stutta lausn. Það þurfti því að breyta hefðbundna æfingarfyrirkomulagi liðsins til þess að búa keppendurna sem best undir Evrópukeppnina.

Íslenska liðið undirbjó sig vel í aðstöðunum sem að Háskóli Íslands og Háskóli Reykjavíkur útbjuggu handa þeim. Matthias Baldursson Harksen var fenginn til að þjálfa liðið þá tvo mánuði sem liðið hafði til undirbúnings fyrir keppnina. Aðrir sem komu að þjálfun liðsins voru Viðar Ágústsson, Ari Ólafsson, Sigurður Ingi Erlingsson og Ágúst Valfells. Þegar kom að keppnisdegi þá var keppnin níðþung eins og svo oft áður og Ingibjörg Haraldsdóttir og Matthias Baldursson Harksen þurftu að hafa mikið fyrir því að komast inn í bygginguna og þýða á tilskyldum tíma því Eistarnir opnuðu fyrir þýðingarnar klukkan 6:30 (þar sem það var keppt í svo mörgum tímabeltum). Drengirnir stóðu sig samt prýðilega og ofar öllum vonum. Kristján Leó náði að vinna sér inn bronsmedalíu á leikunum. Jason Andri var afskaplega nálægt því að vinna sér inn heiðursviðurkenningu. Það ber að nefna að úrlausn Jasons Andra á fyrstu tilrauninni skilaði honum 7,1 stigi af 10 mögulegum en það var 26. besta úrlausnin í keppninni og hefði því samsvarað gullmedalíu í þeirri tilraun.

Erindi um eldstöðvar á Íslandi

©Kristinn Ingvarsson
Páll Einarsson

Fimmtudaginn 19. desember klukkan 15:00 í hringsalnum á Háskólatorgi flytur Páll Einarsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, erindi á vegum Eðlisfræðifélags Íslands um eldstöðvar á Íslandi, vöktun, viðvaranir, árangur og horfur.

Harmleikurinn á Nýja-Sjálandi um daginn vekur spurningar um virkni eldstöðva á Íslandi og eftirlit með þeim. Á Íslandi og nágrenni eru meira en 30 eldstöðvakerfi sem þarf að fylgjast með. Þau eru af ýmsu tagi og gosvirkni í þeim mjög fjölbreytileg. Á síðustu áratugum hefur verið byggt upp kerfi mælitækja til eftirlits með virkni í jarðskorpunni. Tækni hefur fleygt fram og hafa íslenskir jarðvísindamenn verið í fararbroddi við að nýta hana til eftirlits með eldstöðvum. Núverandi mælakerfi miða fyrst og fremst að því að greina jarðskorpuhreyfingar og jarðskjálfta. Tilraunir eru gerðar til að nýta gasmælingar.

Oft er gerður greinarmunur á langtímaspá um virkni eldstöðvar (ár, áratugir), miðtímaspá (dagar, vikur) og skammtímaspá (klukkustundir, dagar). Mismunandi aðferðum er beitt við þessa spáflokka og er þá miðað við það grunnlíkan að kvika safnist fyrir á safnsvæði eða í kvikuhólfi undir eldstöð, þrýstingur fari þar hægt vaxandi þangað til jarðskorpan bresti og kvikan leiti á stuttum tíma til yfirborðs og fóðri eldgos. Langtímaspáin byggist þá á því að hægt sé að bera kennsl á eldstöðvar þar sem þrýstingur fer vaxandi og fylgjast síðan með þrýstingsaukningunni. Eldstöð í þessu ástandi sýnir oft þráláta og vaxandi skjálftavirkni og mælanlega aflögun í næsta nágrenni. Skammtímaspáin byggist síðan á því að hægt sé að bera kennsl á atburðinn þegar hólfið brestur og fylgja kvikunni eftir á leið sinni til yfirborðs. Þessu ferli fylgir oftast auðkennandi skjálftahrina. Miðtímaspáin er erfiðust því erfitt er að finna ferli sem á sér stað á þeim tímaskala. Á síðustu 44 árum hafa orðið 21 staðfest eldgos á Íslandi. Viðvörun um yfirvofandi eldgos hefur verið gefin út á undan 14 þeirra. Öll áttu þau sér þó mælanlega skammtímaforboða, en stundum hefur tíminn verið svo stuttur að ekki hefur verið unnt að bregðast við. Aðeins í einu tilfelli var hægt að gefa út viðvaranir á öllum tímaskölum. Það var á undan gosi í Grímsvötnum 2004. Þá var miðtímaspáin byggð á jökulhlaupi úr Grímsvötnum sem talið var hugsanlegt að hleypti gosi af stað í eldstöðinni, sem varð raunin.

Um þessar mundir má greina fimm megineldstöðvar á mismunandi stigum undirbúnings undir gos. Þrýstingur undir Grímsvötnum hefur farið vaxandi síðan eftir gosið 2011 og nálgast nú að vera svipaður og á undan gosunum 1998, 2004 og 2011. Þrýstingur undir Heklu hefur einnig vaxið jafnt og þétt eftir þrýstifall í tengslum við gosin 1991 og 2000 og er nú orðinn umtalsvert hærri en á undan þessum gosum. Bárðarbunga sýnir merki um vaxandi þrýsting eftir öskjuhrunið og gosið í Holuhrauni 2014-2015. Katla hefur sýnt viðvarandi skjálftavirkni undanfarna áratugi en er tiltölulega róleg um þessar mundir. Öræfajökull þandist út 2016-2018 en hefur tekið hlé á þeirri virkni. Velta má því fyrir sér hver þessara eldstöðva sé líklegust til að leiða til harmleiks í líkingu við þann á Nýja-Sjálandi. Athyglin beinist óneitanlega að Heklu vegna aukinnar ferðamennsku á fjallinu, tíðra flugferða yfir topp eldfjallsins, og óvenju stuttra skammtímaforboða.

Fyrirlesturinn verður sem fyrr segir á í hringsalnum á Háskólatorgi klukkan 15:00, fimmtudaginn 19. desember.

Úrslit landskeppninnar og ólympíuliðið 2017

Árleg landskeppni í eðlisfræði fór fram 11. og 12. mars síðastliðinn. Til hennar var boðið 14 framhaldsskólanemum; 7 hæstu úr undankeppninni sem fór fram 14. febrúar, og 7 næstu sem eru nógu ungir til að fá að taka þátt í ólympíukeppninni sem haldin verður  16.-24. júlí í Yogyakarta, Indónesíu.

Landskeppnin hefur enda þetta tvíþætta hlutverk, að hvetja ungt fólk til að skara framúr í lausnum eðlisfræðilegra verkefna, og að velja fimm manna landslið til að fara sem fulltrúar Íslands á ólympíukeppnina. Keppnin reynir á færni keppenda til að leysa úr hvoru tveggja fræðilegum sem og verklegum þrautum.

Það var fríður flokkur duglegs ungs fólks sem mætti í húsnæði Háskóla Íslands tvo helgarmorgna í mars og spreytti sig á níðþungum verkefnum. Hæst urðu að rauninni lokinni:

  1. Sindri Magnússon, MR
  2. Atli Fannar Franklín, MA
  3. Erla Sigríður Sigurðardóttir, MA
  4. Garðar Sigurðarson, MR
  5. Anton Richter, MR

Lesa áfram Úrslit landskeppninnar og ólympíuliðið 2017

Eðlisfræði á Íslandi 2017 lokið

Ráðstefna Eðlisfræðifélags Íslands, Eðlisfræði á Íslandi, fór fram 8. apríl 2017 í Háskólanum í Reykjavík. Þetta var annað árið í röð sem ráðstefnan var haldin eftir að hún var endurvakin eftir nokkurt hlé.

Líkt og í fyrra komu fyrirlesarar af ýmsum sviðum. Egill Skúlason lýsti útreikningum byggðum á fræðilegum líkönum sem teymið hans við HÍ notar til að hanna efnahvata sem gera þeim kleift að rafgreina áburð og eldsneyti úr vantslausnum. Hanna Blanck lýsti skjálftamælingum IMAGE verkefnisins og kynnti áhugaverðar tilraunir þeirra með notkun ljósleiðara til að mæla jarðskjálfta.

Gunnar Gunnarsson lauk svo morgunlotunni á því að lýsa jarðhitabúskap Hellisheiðarvirkjunar og því hvernig eðli jarðhitasvæði krefst þess í raun að ráðast þarf hægt í slíkar virkjanir þar sem óvissan um raunverulegt magn varma er svo mikil. Hún verður ekki minnkuð nema með mælingum úr borholum.

Ráðstefnugestir fengu hádegismat í boði félagsins og gafst þá góður tími til spjalls um margvísleg málefni en markmið ráðstefnunnar er ekki síst að stuðla að tengslamyndun og kynna eðlisfræðinga úr misjöfnum geirum hvor fyrir öðrum.

Eftir mat var haldið á vit hins smásæja og risastóra. Ágúst Valfells kynnti rannsóknir þeirra Andreis Manolescu á sviðsröfun. Guðlaugur Jóhannesson fór yfir þær aðferðir sem notaðar eru til greininga fjarreikistjarna og hvaða upplýsingar þær geta gefið okkur (spoiler: við vitum ekki hvernig þær líta út), og Gunnlaugur Björnsson fjallaði um samspil sólvinds og segulsviðsins; hvað ræður staðsetningu norðurljósanna, áhrif sólvindsins á lífið á jörðinni og segulsviðsmælingarnar í Leiruvogi sem hann hefur seð um.

Eftir kaffi og gott spjall lauk ráðstefnunni á kennslufræðilegum nótum með erindum frá kennurum frá leikskólastigi og upp á framhaldsskólastig.

Í öfugri aldursröð nemenda, þó. Viðar Ágústsson reið á vaðið og kynnti vendikennslu sem hann hefur innleitt í námskeið sem hann kennir, og kvað það vera merkilegustu nýjung sem hann hefði kynnst á um 40 ára ferli sínum. Jens Karl Ísfjörð mælti fyrir mikilvægi verklegra æfinga sem áhugavaka og hvata. Án þeirra á sér enda ekki mikið nám stað.

María Sophusdóttir sagði frá nálgun sinni á náttúrufræðimenntun sem hún hefur nefnt Hugur og hönd sem íslenskun á Hands-on, minds-on nálguninni. Aðferðin leggur áherslu á að samþætta verklegar æfingar samræðu um viðfangsefnið og skila nemendur verkefnum af sér á formi skýrslu eða kynningar. Sigurlaug Vigdís Einarsdóttir lýsti svo vísindaleikjum sem hún vann með leikskólanemendum þar sem nám er nálgast úr leik. Hún byggði á vísindaleikjum Hauks Arasonar og bætti efnafræðileikjum við sem hluti af meistaranámi sínu.

Að loknum umræðum var ráðstefnunni slitið. Það er von félagsins og undirbúningsnefndar ráðstefnunnar að hún verði nú að árlegum viðburði á ný.