Dagskrá og ágrip erinda

Staðsetning: Háskólinn í Reykjavík, stofu M104.

Skráningarsíða.

10:30 Kaffiveitingar

10:55 Opnun ráðstefnu

11:00 Árni Sigurður Ingason, Grein Research
Grein Research – Nýsköpunarfyrirtæki í Efnistækni
Grein Research er nýlega stofnað sprotafyrirtæki sem starfar á sviði efnistækni á nanóskala í nánu samstarfi við Örtæknikjarna Háskóla Íslands. Stofnendurnir eru allir fyrrum nemendur eða starfsmenn Háskólans, sem hafa farið erlendis að sinna frekara námi eða störfum á þessu sviði en eru nú saman komnir í þetta verkefni á Íslandi. Markmið fyrirtækisins er fyrst um sinn að brúa bilið milli þeirrar þekkingar og tækni sem til er í efnistækni við Háskóla Íslands og íslensk iðnaðar. Talsverð fjárfesting hefur orðið á undanförnum árum á þessu sviði bæði í tækjum og starfskrafti en enn sem komið er hefur hún ekki nýst íslenskum framleiðslufyrirtækjum í miklu mæli. Stuttlega verður farið yfir hvernig hugmyndin að fyrirtækinu kom til, hverjar eru framtíðaráætlanir þess og hvernig hefur gengið að koma því af stað auk þess sem farið verður yfir nokkur af þeim verkefnum sem fyrirtækið hefur fengist við.

11:20 Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir, Háskólinn í Reykjavík
Straumdreifing í ljósbogaofni.
Kísilmálmur og kíslijárn eru framleidd í stórum ljósbogaofnum með þremur rafskautum sem bera þriggja fasa straum. Inn í ofninn fara kvarts og kolefni, út kemur kísilmálmur og koltvísýlingur. Þarna koma þónokkur efnahvörf við sögu, sem gerast við mismunandi hitastig. Efnahvörfin eru innvermin, og knúin áfram af rafhitun vegna rafstraumsins sem fer um ofninn. Dreifing straumsins um ofninn er lykilatriði fyrir góðan rekstur, en enginn veit hvernig hann dreifist í raun. I fyrirlestrinum segir frá rannsóknarverkefni sem notar heilmikla og skemmtilega eðlisfræði til að gera atlögu að því að reikna út þessa straumdreifingu.

11:40 Kári Helgason, Háskóli Íslands
Skyggnst inn í sögu stjörnumyndunnar í alheiminum með háorku-gammageislum
Gangur stjörnumyndunar í vetrarbrautum er mikilvægasta einkenni þeirra sem stuðlar að fjölbreyttri flóru vetrarbrauta dagsins í dag. Ég fer stuttlega yfir sögu stjörnumyndunnar eins og hún birtist okkur eftir áratugamælingar á milljónum vetrarbrauta. Ég skýri svo frá nýrri aðferð sem notast við háorku gammageilsa til að ákvarða stjörnumyndunarsögu alheimsins útfrá svokölluðu bakgrunnsljósi vetrarbrautanna. Með þessari aðferð hefur okkur tekist að ákvarða stjörnumyndun á tímabili sem nemur 90% af aldri alheimsins.

12:00 Hádegishlé

13:00 Heiða María Sigurðardóttir, Háskóli Íslands
Kynlegar hallatölur: Konur í vísindum
Konur eru í meirihluta nemenda við háskóla á Íslandi sem og á mörgum öðrum stöðum í heiminum. Þrátt fyrir þetta er enn öfugur kynjahalli í akademískum stöðum innan háskóla. Í fyrirlestrinum verður farið yfir nokkrar mögulegar orsakir þess að enn hallar á konur í vísindum. Sérstaklega verður velt upp þeirri spurningu að hugsanaskekkjur hafi áhrif á mat fólks á störfum kvenna í vísindum.

13:20 Jón Skírnir Ágústsson, Nox Medical
Greining á orsökum kæfisvefns með líkönum, samþættingu skynjara, og mati á óþekktum stærðum
Góð öndun er mikilvæg til að fá góðan og endurnærandi svefn. Ýmsir kvillar geta haft áhrif á öndun sofandi fólks. Þessir kvillar geta verið þrengingar í efri öndunarvegi, léleg virkni vöðva í efri öndunarvegi, skert hæfni til að stýra öndun, og grunnur svefn. Afleiðingar þessara kvilla geta verið kæfisvefn, þar sem að sjúklingur hættir endurtekið að anda um nóttina. Í nútíma svefnmælingum er öndun mæld með því að meta loftflæði í nefi og öndunarhreyfingar brjóstkassa og maga. Við greiningu á kæfisvefni er eingöngu horft á breytingar á hámarks flæði og ef öndun minnkar er athugað hvort að minnkuð öndun orsaki örvöku eða fall súrefnismettunar í blóði. Öndunarhlé eru talin og greining byggð á fjölda öndunarhléa á klukkustund óháð lengd, alvarleika og orsaka öndunartruflana. Til að greina orsakir kæfisvefns með núverandi aðferðum þarf að framkvæma inngripsmiklar mælingar þar sem að skynjari er þræddur í gegnum nef sjúklings og niður í vélindað. Vegna skorts á aðgengilegum mæliaðferðum eru orsakir kæfisvefns venjulega ekki greindar og því er meðferð við kæfisvefni mjög einsleit.

Gera má líkan af öndunarkerfi sofandi manneskju og nota mælingar á neföndun og öndunarhreyfingum brjóstkassa og maga til að meta orsakir kæfisvefns. Með því að nýta gögn úr nokkrum skynjurum má aðhæfa líkanið að sjúklingnum. Þannig má fá upplýsingar um ástand sjúklingsins, sem annars er eingöngu hægt að fá með því að framkvæma ofangreindar mælingar í gegnum vélinda. Með því að afla gagnanna í hærri upplausn, vinna þau með nútíma merkjafræði og nota líkön, má því finna orsakir kæfisvefns hjá fólki án óþæginda fyrir sjúklinginn.

13:40 Kristín Jónsdóttir, Veðurstofa Íslands
Vöktun Öræfajökuls
Öræfajökull er eldkeila í sunnanverðum Vatnajökli og hæsta fjall landsins eða um 2110 m. Eldfjallið er tiltölulega bratt til vesturs, suðurs og austurs og efst er sporöskjulaga askja, 3,5-5 km í þvermál, sem er fyllt með allt að 500 m þykkum jökulís. Tvö eldgos eru þekkt á sögulegum tíma, árin 1362 og 1727-28. Öræfajökull hefur ekki verið talið mjög virkt eldfjall, enda hefur það ekki gosið oft og skjálftavirkni verið óveruleg. Eldgosið 1362 var mikið öskugos sem lagði nærliggjandi byggð í eyði með tilheyrandi gjóskuflóðum, öskufalli og jökulhlaupum. Askan dreifðist um allt mið- og Austurland en náði einnig til Grænlands, Írlands og Noregs. Eldgosið sem hófst 1727 var meðalstórt og hafði einnig mikil áhrif á byggðina í kring. Því fylgdi töluverð jarðskjálftavirkni, mikil hamfaraflóð og gjóskufall.

Síðan stafrænt jarðváreftirlit hófst á Íslandi fyrir nokkrum áratugum, hafa að meðaltali mælst 8 skjálftar á ári af stærð 1 til 3. Árið 2016 jókst jarðskjálftavirkni lítillega og ári síðar í september fjórfaldaðist skjálftavirknin. Um miðjan nóvember 2017 uppgötvaðist nýr ísketill, um 1 km breiður, staðsettur nálægt miðju öskjunnar. Myndun hans er til marks um bráðnun jökulsins að neðan. Um svipað leiti og ketilinn uppgötvaðist barst tilkynning um óvenjulega gaslykt við upptök Kvíár sem hefur vatnasvið sem nær inní öskjuna.

Í erindinu verður farið yfir hvernig Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun háskólans hafa unnið saman að þverfaglegri vöktun Öræfajökuls, þar sem aðferðum jarðeðlisfræði og jarðefnafræði er beitt til að meta m.a. jarðskjálftavirkni, jarðskorpuhreyfingar, breytingar í vatnsföllum og á jökulyfirborði.

14:00 Kaffihlé

14:30 Gísli Jónsson, Geislavarnir Ríkisins
Eðlisfræði Geislavarna
Geislavarnir ríkisins er lítil stofnun sem m.a. sinnir eftirliti með allri notkun jónandi geislunar á Íslandi. Stofnunin er með vöktun á geislavirkum efnum og er jafnframt með mikilvægt viðbúnaðarhlutverk ef upp kæmi meiriháttar geislavá á Íslandi. Í þessu erindi verður sagt frá mest eðlisfræðilega spennandi verkefnum stofnunarinnar.

14:50 Ingibjörg Haraldsdóttir, Félagi raungreinakennara
Ólympíukeppnin í eðlisfræði

15:10 Ólafur Rögnvaldsson, Belgingur
Belgingur í aldanna rás
Í fyrirlestrinum verður leitast við að gefa yfirlit yfir verkefni Belgings á undanförnum árum. Ennfremur verður veður- og veðurfarsspákerfum fyrirtækisins gerð skil ásamt nýtingarmöguleikum þessara hugbúnaðarlausna.

15:30 Umræður og léttar veitingar

16:00 Ráðstefnuslit