Mánaðarskipt færslusafn fyrir: desember 2019

Erindi um eldstöðvar á Íslandi

©Kristinn Ingvarsson
Páll Einarsson

Fimmtudaginn 19. desember klukkan 15:00 í hringsalnum á Háskólatorgi flytur Páll Einarsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, erindi á vegum Eðlisfræðifélags Íslands um eldstöðvar á Íslandi, vöktun, viðvaranir, árangur og horfur.

Harmleikurinn á Nýja-Sjálandi um daginn vekur spurningar um virkni eldstöðva á Íslandi og eftirlit með þeim. Á Íslandi og nágrenni eru meira en 30 eldstöðvakerfi sem þarf að fylgjast með. Þau eru af ýmsu tagi og gosvirkni í þeim mjög fjölbreytileg. Á síðustu áratugum hefur verið byggt upp kerfi mælitækja til eftirlits með virkni í jarðskorpunni. Tækni hefur fleygt fram og hafa íslenskir jarðvísindamenn verið í fararbroddi við að nýta hana til eftirlits með eldstöðvum. Núverandi mælakerfi miða fyrst og fremst að því að greina jarðskorpuhreyfingar og jarðskjálfta. Tilraunir eru gerðar til að nýta gasmælingar.

Oft er gerður greinarmunur á langtímaspá um virkni eldstöðvar (ár, áratugir), miðtímaspá (dagar, vikur) og skammtímaspá (klukkustundir, dagar). Mismunandi aðferðum er beitt við þessa spáflokka og er þá miðað við það grunnlíkan að kvika safnist fyrir á safnsvæði eða í kvikuhólfi undir eldstöð, þrýstingur fari þar hægt vaxandi þangað til jarðskorpan bresti og kvikan leiti á stuttum tíma til yfirborðs og fóðri eldgos. Langtímaspáin byggist þá á því að hægt sé að bera kennsl á eldstöðvar þar sem þrýstingur fer vaxandi og fylgjast síðan með þrýstingsaukningunni. Eldstöð í þessu ástandi sýnir oft þráláta og vaxandi skjálftavirkni og mælanlega aflögun í næsta nágrenni. Skammtímaspáin byggist síðan á því að hægt sé að bera kennsl á atburðinn þegar hólfið brestur og fylgja kvikunni eftir á leið sinni til yfirborðs. Þessu ferli fylgir oftast auðkennandi skjálftahrina. Miðtímaspáin er erfiðust því erfitt er að finna ferli sem á sér stað á þeim tímaskala. Á síðustu 44 árum hafa orðið 21 staðfest eldgos á Íslandi. Viðvörun um yfirvofandi eldgos hefur verið gefin út á undan 14 þeirra. Öll áttu þau sér þó mælanlega skammtímaforboða, en stundum hefur tíminn verið svo stuttur að ekki hefur verið unnt að bregðast við. Aðeins í einu tilfelli var hægt að gefa út viðvaranir á öllum tímaskölum. Það var á undan gosi í Grímsvötnum 2004. Þá var miðtímaspáin byggð á jökulhlaupi úr Grímsvötnum sem talið var hugsanlegt að hleypti gosi af stað í eldstöðinni, sem varð raunin.

Um þessar mundir má greina fimm megineldstöðvar á mismunandi stigum undirbúnings undir gos. Þrýstingur undir Grímsvötnum hefur farið vaxandi síðan eftir gosið 2011 og nálgast nú að vera svipaður og á undan gosunum 1998, 2004 og 2011. Þrýstingur undir Heklu hefur einnig vaxið jafnt og þétt eftir þrýstifall í tengslum við gosin 1991 og 2000 og er nú orðinn umtalsvert hærri en á undan þessum gosum. Bárðarbunga sýnir merki um vaxandi þrýsting eftir öskjuhrunið og gosið í Holuhrauni 2014-2015. Katla hefur sýnt viðvarandi skjálftavirkni undanfarna áratugi en er tiltölulega róleg um þessar mundir. Öræfajökull þandist út 2016-2018 en hefur tekið hlé á þeirri virkni. Velta má því fyrir sér hver þessara eldstöðva sé líklegust til að leiða til harmleiks í líkingu við þann á Nýja-Sjálandi. Athyglin beinist óneitanlega að Heklu vegna aukinnar ferðamennsku á fjallinu, tíðra flugferða yfir topp eldfjallsins, og óvenju stuttra skammtímaforboða.

Fyrirlesturinn verður sem fyrr segir á í hringsalnum á Háskólatorgi klukkan 15:00, fimmtudaginn 19. desember.