Dagskrá og ágrip erinda

Staðsetning: Háskólinn í Reykjavík, stofu M104.

Skráningarsíða.

10:30 Kaffiveitingar

10:55 Opnun ráðstefnu

11:00 Egill Skúlason, Háskóla Íslands
Sjálfbær framleiðsla á eldsneyti og áburði fyrir matvælaræktun
Fjallað verður um rafefnafræðilega afoxun á CO2 í vistvænt eldsneyti sem og rafefnafræðileg afoxun N2 í ammóníak fyrir áburðarframleiðslu. Aðferðirnar sem beitt er eru bæði tölvureikningar sem og tilraunir. Reikningarnir byggja á þéttnifellafræði (density functional theory, DFT) en tilraunirnar er samstarfsverkefni við eðlisfræðinga við Háskóla Íslands sem rækta þunnar húðir sem og við efnafræðinga og eðlisfræðinga á Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem prófa efnahvatana í rafefnafræðilegum tilraunum.
Kennilegu reikningarnir þjóna tvennum tilgangi; í fyrsta lagi til að öðlast innsýn á atómskala inn í þessi efnahvörf sem gerast á yfirborðum efnahvata sem og að nota þessa innsýn til að leita að betri efnahvötum með tölvureikningum. Þeir efnahvatar sem lofa hvað bestu eru síðan ræktaðir sem þunnar húðir en húðirnir eru síðan prófaðar í míkró-hvarfklefum og myndefnin mæld til meta virkni efnahvatanna.

11:20 Hanna Blanck, ÍSOR
Jarðskjálftaverkefnið IMAGE á Reykjanesskaga
Bæði hefðbundnar og nýjar aðferðir voru notaðar við greiningu á stóru safni jarðskjálftagagna frá Reykjanesskaga. Jarðskjálftanet með 30 jarðskjálftastöðvum á landi og 24 á hafsbotni var starfrækt frá mars 2014 fram í ágúst 2015. Meira en 2000 jarðskjálftar voru staðsettir. Flestir þeirra voru á jarðhitasvæðum eða á rekbeltinu. Svokölluð DAS aðferð þar sem ljósleiðari er notaður sem jarðskjálftanemi var prófuð í fyrsta sinn til að skrá jarðskjálfta. Á 9 dögum í mars 2015 voru 2 ljósleiðarar notaðir í skráninguna. Einn þeirra var settur 175 metra niður í nýlega borholu RN-34 og hinn var lagður eftir yfirborði 15 km leið frá Reykjanesi til Svartsengis.

11:40 Gunnar Gunnarsson, OR
Jarðhitaforðinn á Hellisheiði, staða og horfur
Hellisheiðarvirkjun á sunnanverðu Hengilssvæðinu er ætlað að framleiða bæði heitt vatn til upphitunar og rafmagn. Gangsetning virkjunarinnar á árunum 2006-2011 var mjög hröð miðað við eðli jarðhitaauðlindarinnar. Í upphafi uppbyggingar jarðhitavinnslu eru mjög takmarkaðar upplýsingar fyrir hendi um stærð auðlindarinnar. Allar ákvarðanir um stærð Hellisheiðarvirkjunar voru teknar í upphafi verkefnisins og byggðu á upplýsingum úr fáum borholum og ekki á neinum vinnslugögnum. Raunin varð sú að jarðhitinn á sunnanverðu Hengilssvæðinu er nokkuð öðruvísi en áður var talið.
Þetta hefur sett mark sitt á rekstur virkjunarinnar og mikið verk hefur þurft að vinna til að tryggja henni nægjanlega orku. Í þeirri vinnu hafa líkanreikningar gegnt lykilhlutverki. Hermilíkön eru notuð til að meta vinnslugetuna og til að spá fyrir um hvernig svæðið muni bregðast við mismunandi tilhögun vinnslu.

12:00 Hádegishlé

13:00 Ágúst Valfells, Háskólanum í Reykjavík
Lofttómsrafeindatækni hins agnarsmáa
Lofttómsrafeindatæknin á sér langa og virðulega sögu sem nær aftur til aldamótanna 1900. Fram yfir 1950 réðu lampatækin ríkjum, en urðu svo undan að láta fyrir þéttefnis-íhlutum í flestum rafeindabúnaði. Þó hefur hún átt sinn stað þegar mikils afls og hárrar tíðni er krafist, eða þegar þörf er á orkumiklum geislum til einhverra nota, t.d. til efnismeðhöndlunar eða til að létta brún öreindafræðinga með árekstrarblæti. Í þessum fyrirlestri verður farið fljótlega yfir grunnatriði lofttómsrafeindatækninnar og stöðu hennar í dag. Að lokum verður fjallað um stuttlega þær rannsóknir á lofttómsrafeindatækni hins agnarsmá sem gerðar eru við Háskólann í Reykjavík.

13:20 Guðlaugur Jóhannesson, Háskóla Íslands
Leitin að fjarreikistjörnum: stutt yfirlit yfir aðferðir
Mikil fjölgun hefur orðið í mælingum á fjarreikistjörnum og fjöldi þeirra sem finnst eykst með hverju árinu. Áhugi almennings á efninu er yfirleitt mikill, sérstaklega þegar reikistjörnur liggja innan lífbeltis stjörnunnar þar sem hitastig leyfir fljótandi vatn. Í þessu erindi mun ég fara stuttlega yfir þær aðferðir sem notaðar eru til að finna fjarreikistjörnur og hvaða upplýsingar nást úr mælingum.

13:40 Gunnlaugur Björnsson, Háskóla Íslands
Sólin, norðurljósin og lífið á jörðinni
Fjallað verður um virkni sólar og tengsl hennar við tíðni norðurljósa á jörðinni. Rætt verður um áhrifin sem stór sólgos geta haft á lífið í tæknivæddum heimi. Loks verður minnst á rannsóknir á norðurljósum sem eru og hafa verið stundaðar á Íslandi.

14:00 Kaffihlé

14:30 Viðar Ágústsson, Flensborgarskóla
Vendikennsla í eðlisfræði
Vendikennsla er íslenska heitið á „Flipped classroom“, aðferð til að fá nemendur til að læra heima með því að horfa á myndband og koma í skólann til að reikna dæmin með hjálp kennara. Þetta er „omvendt“ við að áður komu nemendur í skólann til að læra af fyrirlestri kennarans og fóru heim til að þjálfa sig í þekkingunni með því að reikna dæmin með misjöfnum árangri.
Í Flensborg hefur slíkum myndböndum verið bætt við hefðbundna eðlisfræðikennslu. Þótt langt sé frá því að allt námsefnið sé dekkað með vendikennslu eykur þessi nýjung fjölbreytnina í kennslunni og fjölda þeirra nemenda sem ná tökum á eðlisfræðinni. Farið verður yfir nálgunina og afraksturinn af vendikennslu í eðlisfræðikennslu í Flensborg.

14:50 Jens Karl Ísfjörð, Ölduselsskóla
Að falla í eðlisfræði, eða að falla fyrir eðlisfræði
Farið verður yfir leiðir í eðlisfræðikennslu í Ölduselsskóla þar sem áhersla hefur verið á verklegar athuganir nemenda. Fjallað er um tengsl áhuga, virkni og árangurs með hliðsjón af námsskrá og stöðu einstaklingsins í námi. Reynt að varpa ljósi á hvaða breytur eru áhrifavaldar lélegs gengis í eðlisfræðinámi og hvaða breytur draga fram aukin námsárangur. Að lokum er fjallað um samfellu, áherslu og stíganda í eðlisfræðikennslu 1.b til og með 10.b Ölduselsskóla.

15:00 María Sophusdóttir, Melaskóla
Hugur og hönd
Í erindinu verður fjallað um eðlisfræðikennslu 6 til 12 ára nemenda í Melaskóla. Námið byggir á verklegum æfingum og samræðum. Lögð er áhersla á að byggja upp hugtakaskilning nemenda og tengja eðlisfræðileg viðfangsefni við daglegt þeirra, reynslu og nánasta umhverfi.

15:10 Sigurlaug Vigdís Einarsdóttir, Laugasól
Er leikur í raunvísindum?
Í leik fást börn oft við þætti sem tengjast raunvísindum en má vinna með þá á skipulagðari hátt og þá hvernig? Fjallað verður um vísindaleiki með leikskólabörnum þar sem leikur er í fyrirrúmi en um leið kynnast börn hugtökum og öðlast þekkingu á eðlisfræðilegum og efnafræðilegum fyrirbærum.

15:30 Umræður og léttar veitingar

16:00 Ráðstefnuslit