Nú eru eitthundrað og tíu ár frá Undraverða árinu hans Einstein. 1905 birti hann þrjár stórmerkar greinar sem hver um sig olli straumhvörfum í eðlisfræði.
Einstein er því meðal merkari vísindamanna fyrr og síðar og sveipaður ævintýrablæ. En hvernig stenst ímynd hans tímans tönn?
Í dag, þriðjudaginn 24. nóvember kl. 15-16, heldur Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor emeritus við HÍ, erindi í boði Eðlisfræðifélags Íslands um Albert Einstein.
Erindið er að mestu byggt á bók um Einstein sem kom út í október. Viðhorf sögunnar til manna á borð við Einstein og til verka hans breytast í sífellu með nýjum gögnum um ævi hans og með nýjum viðhorfum í framvindu vísindanna sjálfra. Í erindinu verða rakin nokkur atriði af þessu tagi, til dæmis:
- Vissi Einstein af tilraun Michelsons og Morleys?
- Hvað gekk honum til í verkum sínum á sviði skammtafræði?
- Hvað með sinnaskiptin um heimsfastann?
- Hversu mikilvægar voru greinarnar tvær frá 1905 um eindir efnisins?
- Hvernig hafa hugmyndir og kenningar Einsteins elst, þegar á heildina er litið?
Erindið verður haldið í VR-2 við Hjarðarhaga 2-6, stofu 157.