Mánaðarskipt færslusafn fyrir: nóvember 2015

Hvað er að frétta af Einstein?

einsteinNú eru eitthundrað og tíu ár frá Undraverða árinu hans Einstein. 1905 birti hann þrjár stórmerkar greinar sem hver um sig olli straumhvörfum í eðlisfræði.

Einstein er því meðal merkari vísindamanna fyrr og síðar og sveipaður ævintýrablæ. En hvernig stenst ímynd hans tímans tönn?

Í dag, þriðjudaginn 24. nóvember kl. 15-16, heldur Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor emeritus við HÍ, erindi í boði Eðlisfræðifélags Íslands um Albert Einstein.

Erindið er að mestu byggt á bók um Einstein sem kom út í október. Viðhorf sögunnar til manna á borð við Einstein og til verka hans breytast í sífellu með nýjum gögnum um ævi hans og með nýjum viðhorfum í framvindu vísindanna sjálfra. Í erindinu verða rakin nokkur atriði af þessu tagi, til dæmis:

  • Vissi Einstein af tilraun Michelsons og Morleys?
  • Hvað gekk honum til í verkum sínum á sviði skammtafræði?
  • Hvað með sinnaskiptin um heimsfastann?
  • Hversu mikilvægar voru greinarnar tvær frá 1905 um eindir efnisins?
  • Hvernig hafa hugmyndir og kenningar Einsteins elst, þegar á heildina er litið?vr-2

Erindið verður haldið í VR-2 við Hjarðarhaga 2-6, stofu 157.

Vefsíða Eðlisfræðifélagsins

Eftir langa mæðu hefur vefsíða Eðlisfræðifélags Íslands loksins litið dagsins ljóss á ný. Hér munu birtast fréttir af starfi félagsins ásamt upplýsingum um félagið.

Félagið heldur árlega aðalfund og óreglulega smærri fræðslufundi. Félagið kemur einnig að eðlisfræðikeppni framhaldsskólanema og veitir styrki fyrir framúrskarandi árangur háskólanýnema í eðlisfræði. Í vor verður svo haldin ráðstefna Eðlisfræðifélagsins þar sem eðlisfræðingar úr hinum ýmsu geirum kynna starf sitt.