Ráðstefna Eðlisfræðifélags Íslands, Eðlisfræði á Íslandi, fór fram 8. apríl 2017 í Háskólanum í Reykjavík. Þetta var annað árið í röð sem ráðstefnan var haldin eftir að hún var endurvakin eftir nokkurt hlé.
Líkt og í fyrra komu fyrirlesarar af ýmsum sviðum. Egill Skúlason lýsti útreikningum byggðum á fræðilegum líkönum sem teymið hans við HÍ notar til að hanna efnahvata sem gera þeim kleift að rafgreina áburð og eldsneyti úr vantslausnum. Hanna Blanck lýsti skjálftamælingum IMAGE verkefnisins og kynnti áhugaverðar tilraunir þeirra með notkun ljósleiðara til að mæla jarðskjálfta.
Gunnar Gunnarsson lauk svo morgunlotunni á því að lýsa jarðhitabúskap Hellisheiðarvirkjunar og því hvernig eðli jarðhitasvæði krefst þess í raun að ráðast þarf hægt í slíkar virkjanir þar sem óvissan um raunverulegt magn varma er svo mikil. Hún verður ekki minnkuð nema með mælingum úr borholum.
Ráðstefnugestir fengu hádegismat í boði félagsins og gafst þá góður tími til spjalls um margvísleg málefni en markmið ráðstefnunnar er ekki síst að stuðla að tengslamyndun og kynna eðlisfræðinga úr misjöfnum geirum hvor fyrir öðrum.
Eftir mat var haldið á vit hins smásæja og risastóra. Ágúst Valfells kynnti rannsóknir þeirra Andreis Manolescu á sviðsröfun. Guðlaugur Jóhannesson fór yfir þær aðferðir sem notaðar eru til greininga fjarreikistjarna og hvaða upplýsingar þær geta gefið okkur (spoiler: við vitum ekki hvernig þær líta út), og Gunnlaugur Björnsson fjallaði um samspil sólvinds og segulsviðsins; hvað ræður staðsetningu norðurljósanna, áhrif sólvindsins á lífið á jörðinni og segulsviðsmælingarnar í Leiruvogi sem hann hefur seð um.
Eftir kaffi og gott spjall lauk ráðstefnunni á kennslufræðilegum nótum með erindum frá kennurum frá leikskólastigi og upp á framhaldsskólastig.
Í öfugri aldursröð nemenda, þó. Viðar Ágústsson reið á vaðið og kynnti vendikennslu sem hann hefur innleitt í námskeið sem hann kennir, og kvað það vera merkilegustu nýjung sem hann hefði kynnst á um 40 ára ferli sínum. Jens Karl Ísfjörð mælti fyrir mikilvægi verklegra æfinga sem áhugavaka og hvata. Án þeirra á sér enda ekki mikið nám stað.
María Sophusdóttir sagði frá nálgun sinni á náttúrufræðimenntun sem hún hefur nefnt Hugur og hönd sem íslenskun á Hands-on, minds-on nálguninni. Aðferðin leggur áherslu á að samþætta verklegar æfingar samræðu um viðfangsefnið og skila nemendur verkefnum af sér á formi skýrslu eða kynningar. Sigurlaug Vigdís Einarsdóttir lýsti svo vísindaleikjum sem hún vann með leikskólanemendum þar sem nám er nálgast úr leik. Hún byggði á vísindaleikjum Hauks Arasonar og bætti efnafræðileikjum við sem hluti af meistaranámi sínu.
Að loknum umræðum var ráðstefnunni slitið. Það er von félagsins og undirbúningsnefndar ráðstefnunnar að hún verði nú að árlegum viðburði á ný.