Úrslit landskeppninnar og ólympíuliðið 2017

Árleg landskeppni í eðlisfræði fór fram 11. og 12. mars síðastliðinn. Til hennar var boðið 14 framhaldsskólanemum; 7 hæstu úr undankeppninni sem fór fram 14. febrúar, og 7 næstu sem eru nógu ungir til að fá að taka þátt í ólympíukeppninni sem haldin verður  16.-24. júlí í Yogyakarta, Indónesíu.

Landskeppnin hefur enda þetta tvíþætta hlutverk, að hvetja ungt fólk til að skara framúr í lausnum eðlisfræðilegra verkefna, og að velja fimm manna landslið til að fara sem fulltrúar Íslands á ólympíukeppnina. Keppnin reynir á færni keppenda til að leysa úr hvoru tveggja fræðilegum sem og verklegum þrautum.

Það var fríður flokkur duglegs ungs fólks sem mætti í húsnæði Háskóla Íslands tvo helgarmorgna í mars og spreytti sig á níðþungum verkefnum. Hæst urðu að rauninni lokinni:

  1. Sindri Magnússon, MR
  2. Atli Fannar Franklín, MA
  3. Erla Sigríður Sigurðardóttir, MA
  4. Garðar Sigurðarson, MR
  5. Anton Richter, MR

Framhaldsskólanemar á Íslandi hefja hins vegar nokkuð seint nám í eðlisfræði og útskrifast (ennþá) seinna en nemendur erlendis. Á ólympíukeppninni er aldursþak sem veldur því að hluti útskriftarárganga í framhaldsskólum er of gamall til þátttöku í ólympíukeppninni og því er ekki gefið að hátt sæti á landskeppninni gefi sæti á ólympíukeppninni.

Svo standa sumir hverjir sig vel í nokkrum samskonar keppnum hérlendis og verða því að velja í hvaða landsliði þeir kjósa að taka sæti í. Þegar allt slíkt ryk hafði sest í gær var landslið Íslands í eðlisfræði árið 2017 komið á hreint. Það skipa þau:

  • Brynjar Ingimarsson, MA
  • Erla Sigríður Sigurðardóttir, MA
  • Inga Guðrún Eiríksdóttir, MR
  • Þorsteinn Elí Gíslason, VÍ
  • Þórður Friðriksson, MR

Þau hefja um sex vikna þjálfun í sumarbyrjun strax og prófum lýkur sem stendur allt þar til haldið verður þvert í kringum hnöttinn til Indónesíu. Eðlisfræðifélagið óskar þeim alls hins besta á þessari vegferð.

Hér að neðan má sjá myndir frá verklega þætti landskeppninnar og tilkynningu úrslita.