Allar færslur eftir martin

Ólympíukeppnin í eðlisfræði 2020

Eðlisfræðikeppni framhaldsskólanna átti fyrst að vera haldin helgina 28-29. mars 2020 en var slegið á frest í ljósi aðstæðna í tengslum við veiruna (COVID-19). Keppnin var síðan haldin helgina 23-24. maí 2020 eftir lok fyrri bylgjunnar. Það var kannski athyglisvert í ljósi þess að það var eflaust í fyrsta skipti sem að nýútskrifaðir stúdentar tóku þátt í keppninni og því var keppnin kannski erfiðari heldur en mörg önnur ár (og úrlausnirnar betri). Fyrsta sæti deildu þeir Jason Andri Gíslason og Kristján Leó Guðmundsson en báðir fengu 47.1 stig af 50 mögulegum. Þeir voru báðir í liðinu sem fór til Ísrael árið áður. Jason Andri sigraði fræðilegu keppnina með 29.1 stigi af 30 mögulegum en Kristján sigraði verklegu keppnina með 19.7 af 20 mögulegum stigum í verklega hlutanum. Þriðji í keppninni varð Arnar Ágúst Kristjánsson með 40.5 stig, fjórði varð Kári Rögnvaldsson með 38.2 stig og í fimmta sæti varð Örn Steinar Sigurbjörnsson með 31.2 stig. En það er gaman að segja frá því að Örn hafði lært mest allt sjálfur í sjálfsnámi sem hluta af undirbúningi fyrir læknisfræðiprófið þar sem að hann hafði enga formlega kennslu í eðlisfræði síðasta árið sitt í MR. Jason Andri og Kristján Leó ákváðu að þiggja sætið sem þeim var boðið í liðinu. Arnar og Kári völdu að taka þátt á Ólympíuleikunum í stærðfræði (Arnar hlaut heiðursviðurkenningu á Ólympíuleikunum í stærðfræði í sumar). Örn valdi að taka þátt í Ólympíuleikunum í efnafræði. Íslenska Ólympíuliðið í eðlisfræði skipuðu því Jason Andri Gíslason, Kristján Leó Guðmundsson, Arnar Gylfi Haraldsson, Valdimar Örn Sverrisson og Jón Valur Björnsson.

Sú þjóð sem átti að halda Ólympíuleikana í eðlisfræði 2020 var Litháen, en sökum ástandsins var henni frestað til ársins 2021 (og öllum Ólympíuleikum frestað um eitt ár). Eistinn, Jaan Kalda, tók málin í sínar hendur og ákvað að þá skyldu Evrópuleikarnir (EuPhO) verða rafrænir í ár ásamt því að bjóða fleiri þjóðum utan Evrópu. Íslendingar ákváðu því að taka þátt í þessum Evrópuleikum í fyrsta sinn. Evrópuleikarnir voru haldnir rafrænt 20-26. júlí 2020. Margar af þeim þjóðum sem taka venjulega þátt á alþjóðlegu leikunum tóku þátt á Evrópuleikunum núna (m.a. Japan, Kórea, Víetnam og Taívan). Alls tóku 54 þjóðir þátt á Evrópuleikunum í ár (það taka um það bil 80 þjóðir þátt á IPhO). Hugmyndafræðin á bak við verkefnin sem eru lögð fyrir á Evrópuleikunum eru aðeins frábrugðin þeim sem er lagt fyrir á alþjóðlegu Ólympíuleikunum. Á Evrópuleikunum er miðað við að verkefnin séu stutt og úrlausnir langar og einblínt á eðlisfræðilegt innsæi á meðan að á alþjóðlegu leikunum eru verkefnin löng og í mörgum liðum en hver liður hefur oft stutta lausn. Það þurfti því að breyta hefðbundna æfingarfyrirkomulagi liðsins til þess að búa keppendurna sem best undir Evrópukeppnina.

Íslenska liðið undirbjó sig vel í aðstöðunum sem að Háskóli Íslands og Háskóli Reykjavíkur útbjuggu handa þeim. Matthias Baldursson Harksen var fenginn til að þjálfa liðið þá tvo mánuði sem liðið hafði til undirbúnings fyrir keppnina. Aðrir sem komu að þjálfun liðsins voru Viðar Ágústsson, Ari Ólafsson, Sigurður Ingi Erlingsson og Ágúst Valfells. Þegar kom að keppnisdegi þá var keppnin níðþung eins og svo oft áður og Ingibjörg Haraldsdóttir og Matthias Baldursson Harksen þurftu að hafa mikið fyrir því að komast inn í bygginguna og þýða á tilskyldum tíma því Eistarnir opnuðu fyrir þýðingarnar klukkan 6:30 (þar sem það var keppt í svo mörgum tímabeltum). Drengirnir stóðu sig samt prýðilega og ofar öllum vonum. Kristján Leó náði að vinna sér inn bronsmedalíu á leikunum. Jason Andri var afskaplega nálægt því að vinna sér inn heiðursviðurkenningu. Það ber að nefna að úrlausn Jasons Andra á fyrstu tilrauninni skilaði honum 7,1 stigi af 10 mögulegum en það var 26. besta úrlausnin í keppninni og hefði því samsvarað gullmedalíu í þeirri tilraun.

Erindi um eldstöðvar á Íslandi

©Kristinn Ingvarsson
Páll Einarsson

Fimmtudaginn 19. desember klukkan 15:00 í hringsalnum á Háskólatorgi flytur Páll Einarsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, erindi á vegum Eðlisfræðifélags Íslands um eldstöðvar á Íslandi, vöktun, viðvaranir, árangur og horfur.

Harmleikurinn á Nýja-Sjálandi um daginn vekur spurningar um virkni eldstöðva á Íslandi og eftirlit með þeim. Á Íslandi og nágrenni eru meira en 30 eldstöðvakerfi sem þarf að fylgjast með. Þau eru af ýmsu tagi og gosvirkni í þeim mjög fjölbreytileg. Á síðustu áratugum hefur verið byggt upp kerfi mælitækja til eftirlits með virkni í jarðskorpunni. Tækni hefur fleygt fram og hafa íslenskir jarðvísindamenn verið í fararbroddi við að nýta hana til eftirlits með eldstöðvum. Núverandi mælakerfi miða fyrst og fremst að því að greina jarðskorpuhreyfingar og jarðskjálfta. Tilraunir eru gerðar til að nýta gasmælingar.

Oft er gerður greinarmunur á langtímaspá um virkni eldstöðvar (ár, áratugir), miðtímaspá (dagar, vikur) og skammtímaspá (klukkustundir, dagar). Mismunandi aðferðum er beitt við þessa spáflokka og er þá miðað við það grunnlíkan að kvika safnist fyrir á safnsvæði eða í kvikuhólfi undir eldstöð, þrýstingur fari þar hægt vaxandi þangað til jarðskorpan bresti og kvikan leiti á stuttum tíma til yfirborðs og fóðri eldgos. Langtímaspáin byggist þá á því að hægt sé að bera kennsl á eldstöðvar þar sem þrýstingur fer vaxandi og fylgjast síðan með þrýstingsaukningunni. Eldstöð í þessu ástandi sýnir oft þráláta og vaxandi skjálftavirkni og mælanlega aflögun í næsta nágrenni. Skammtímaspáin byggist síðan á því að hægt sé að bera kennsl á atburðinn þegar hólfið brestur og fylgja kvikunni eftir á leið sinni til yfirborðs. Þessu ferli fylgir oftast auðkennandi skjálftahrina. Miðtímaspáin er erfiðust því erfitt er að finna ferli sem á sér stað á þeim tímaskala. Á síðustu 44 árum hafa orðið 21 staðfest eldgos á Íslandi. Viðvörun um yfirvofandi eldgos hefur verið gefin út á undan 14 þeirra. Öll áttu þau sér þó mælanlega skammtímaforboða, en stundum hefur tíminn verið svo stuttur að ekki hefur verið unnt að bregðast við. Aðeins í einu tilfelli var hægt að gefa út viðvaranir á öllum tímaskölum. Það var á undan gosi í Grímsvötnum 2004. Þá var miðtímaspáin byggð á jökulhlaupi úr Grímsvötnum sem talið var hugsanlegt að hleypti gosi af stað í eldstöðinni, sem varð raunin.

Um þessar mundir má greina fimm megineldstöðvar á mismunandi stigum undirbúnings undir gos. Þrýstingur undir Grímsvötnum hefur farið vaxandi síðan eftir gosið 2011 og nálgast nú að vera svipaður og á undan gosunum 1998, 2004 og 2011. Þrýstingur undir Heklu hefur einnig vaxið jafnt og þétt eftir þrýstifall í tengslum við gosin 1991 og 2000 og er nú orðinn umtalsvert hærri en á undan þessum gosum. Bárðarbunga sýnir merki um vaxandi þrýsting eftir öskjuhrunið og gosið í Holuhrauni 2014-2015. Katla hefur sýnt viðvarandi skjálftavirkni undanfarna áratugi en er tiltölulega róleg um þessar mundir. Öræfajökull þandist út 2016-2018 en hefur tekið hlé á þeirri virkni. Velta má því fyrir sér hver þessara eldstöðva sé líklegust til að leiða til harmleiks í líkingu við þann á Nýja-Sjálandi. Athyglin beinist óneitanlega að Heklu vegna aukinnar ferðamennsku á fjallinu, tíðra flugferða yfir topp eldfjallsins, og óvenju stuttra skammtímaforboða.

Fyrirlesturinn verður sem fyrr segir á í hringsalnum á Háskólatorgi klukkan 15:00, fimmtudaginn 19. desember.

Eðlisfræði á Íslandi 2018

Ráðstefna Eðlisfræðifélags Íslands, Eðlisfræði á Íslandi 2018, verður haldin laugardaginn 5. maí í Háskólanum í Reykjavík. Ráðstefnan hefst klukkan 10:30 og lýkur um 16:00. Ráðstefnugjald er 2.000 kr en ókeypis fyrir námsmenn. Innifalið í ráðstefnugjaldinu er hádegisverður ásamt kaffi um morgun og eftirmiðdag.

Meðal fyrirlesara verða:

  • Árni Sigurður Ingason, Grein Research
  • Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir, Háskólanum í Reykjavík
  • Kári Helgason, Háskóla Íslands
  • Heiða María Sigurðardóttir, Háskóli Íslands
  • Jón Skírnir Ágústsson, Nox Medical
  • Kristín Jónsdóttir, Veðurstofa Íslands
  • Gísli Jónsson, Geislavarnir Ríkisins
  • Ólafur Rögnvaldsson, Belgingur

Frekari upplýsingar og skráningarform er að finna á síðu ráðstefnunnar. Dagskrána má finna hér.

Fræðsluerindi um Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 2017

Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 2017 voru veitt fyrir staðfestingu á tilvist þyngdarbylgja. Þessi uppgötvun opnar nýjar víddir í rannsóknum á alheiminum en hingað til hefur ljós verið eina leið okkar til að öðlast vitneskju um eðli hans. Uppgötvunin er ennfremur enn ein staðfestingin á almennu afstæðiskenningu Alberts Einstein sem spáir fyrir tilvist þeirra.

Fimmtudaginn 4. janúar 2018 bjóða Vísindafélags Íslendinga, Eðlisfræðifélags Íslands, Þekkingarsetur í fræðilegri tölvunarfræði og Háskólinn í Reykjavík upp á fyrirlestur þar sem prófessor Eugenio Coccia fer yfir stöðu rannsókna á þyngdarbylgjum.

Viðburðurinn er öllum opinn og léttar veitingar í boði.

Facebook viðburður
Frétt á heimasíðu HR